Námskeið
Í staðnámi er boðið upp á tvö námskeið sem sérstaklega eru ætluð kennurum, starfsfólki félagsmiðstöðva, þjálfurum og öðrum sem vinna með börnum.
Námsaðferðir óformlegs náms í ofbeldisforvörnum
Safn leikja, verkefna og umræðukveikja sem nýta má í ofbeldisforvörnum hvort sem er í skipulögðu skólastarfi eða óformlegu námsumhverfi s.s. æskulýðs- og íþróttastarfi
Bæði er boðið upp á heilsdagsnámskeið þar sem farið er yfir allt námsefni í staðnámi og einnig upp á netnám þar sem nemum gefst kostur á að mæta á 2 klst leikja og umræðutíma sem haldnir eru nokkur skipti á önn.
Heils- eða hálfsdagsnámskeið þar sem umræður, leikir og verkefni eru nýtt til að styrkja þekkingu starfsfólks á viðfangsefninu auk þess að gefa verkfæri til að leiða ungmennahópa í gegnum námsefnið. Á námskeiðum er hægt að velja áherslu á mismunandi þemu s.s. gagnrýna hugsun um klám og klámvæðingu, karlmennsku og tilfinningalæsi eða heilbrigð sambönd og samskipti. Einnig er þó hægt að spinna þemum saman og fá í námskeiðinu grynnri kynningu á öllum þremur.
Áhorfendanálgun sem verkfæri til að breyta menningu
Námskeið fjallar um kynbundið ofbeldi og leiðir til að breyta menningu á þann hátt að slíkt ofbeldi eigi sér síður pláss þar. Námsefnið og fyrirlestrar mynda heildstæða nálgun sem mælt er með að taka fyrir í að lágmarki þrjú 90 mínútna skipti með hverjum hóp. Aðferðin byggir á innlögn námsefnis, umræðum og leikjum. Á námskeiðinu lærir starfsfólk að leiða ungmennahóp í gegnum námsefnið.
Námsaðferðir eru óformlegar og eru umræður, leikir og verkefni nýtt til að styrkja þekkingu starfsfólks á viðfangsefninu auk þess að gefa verkfæri til að leiða ungmennahópa í gegnum námsefnið. Að námskeiði loknu geta þátttakendur gert ráð fyrir að hafa efni í að lágmarki þrjár 80 mínútna kennslustundir, hópatíma eða fræðslukvöld.
Námsefnið byggir á þrautreyndu módeli af forvörnum gegn ofbeldi og áreitni sem gengur út á að auka getu og þor þeirra sem verða vitni að óviðeigandi hegðun, til að bregðast við á öruggan hátt.
Sýnt hefur verið fram á að þátttakendur í námskeiðum byggðum á áhorfendanálgun (bystander approach) geta öðlast:
• Þekkingu á hvað er óviðeigandi hegðun
• Aukna færni og sjálfstraust til að bregðast við aðstæðum sem upp koma
• Frekari skilning á hvaða áhrif lítið samfélag eins og skóli, bekkur, íþróttalið eða vinnustaður getur haft til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi og áreitni