Course Content
Karlmennska og tilfinningalæsi í forvarnastarfi gegn kynbundnu ofbeldi
0/1
Um karlmennsku og tilfinningalæsi
0/1
Námskeiðslok
0/1
Karlmennska og tilfinningalæsi
About Lesson

Þegar rætt er um karlmennsku og tilfinningalæsi mætir fólk gjarnan ákveðinni mótstöðu, þar sem ekki eru öll tilbúin að ræða málefnið. Það er kannski viðbúið enda getur umræðuefnið verið erfitt, persónulegt og þátttakendur geta upplifað að þau sjálf séu gagnrýnd. Þess vegna er mikilvægt í æskulýðsstarfi að opna umræðuna á hátt sem auðveldar ungmennunum að taka þátt, minnkar óþægindi þeirra og sýnir þeim að þau sjálf eigi hagsmuna að gæta í að taka þátt í umræðunni.

Hér að neðan er stuttur listi sem gæti nýst til að skapa rými þar sem opna má umræðuna og hugmyndir til að koma henni af stað.

  • Taka burt upplifða skömm eða fordæmingu. Það er erfitt fyrir unglinga að taka þátt í umræðu ef þau upplifa að þú hafir neikvæða skoðun á þeim, þeirra hugmyndum eða skoðunum. Dæmi: í umræðu um slagsmál er auðvelt fyrir leiðbeinanda að taka þá afstöðu að það sé bara svo ótrúlega vitlaust og rangt að taka þátt í slagsmálum. Það má vel vera að sú afstaða sé rétt en með því að deila henni í upphafi er líklegt að þú lokir á vilja og getu þeirra sem taka þátt í slagsmálum til að taka þátt í umræðunni. Þannig lokar þú á þeirra möguleika til að læra í gegnum umræðuna og finna sína eigin ástæðu til að taka ekki þátt í slagsmálunum.
  • Reyndu að tala út frá því viðhorfi að þú og þátttakendur séuð í sama liði að vinna að einhverju markmiði – Þú ert ekki bara að kenna þeim enda hefur ungt fólk alltaf haft mikilvæga rödd í baráttu fyrir breytingum og við sem eldri erum þurfum að læra að hlusta á þau.
  • Byrjaðu umræðuna sem dulið markmið Dæmi: Klúbbur er myndaður í félagsmiðstöðvum um áhuga nokkurra stráka á að halda Lan og spila ákveðinn tölvuleik. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar setti sér að auki það markmið að taka á því hvernig strákarnir töluðu til hvers annars, þeir voru vanir að vera mjög dónalegir við hvorn annan og spjallið var litað af karlrembu.
  • Fara yfir grunninn og taka smá ‘mythbusters’. Það eru til margar lífseigar mýtur um karlmennsku. Gríptu tækifærið þegar eitthvað kemur upp í umræðunni eða byrjaðu sjálf/-t/-ur á að nefna dæmi um mýtur sem ekki standast frekari skoðun.
  • Byrja á einhverju sem öllum er hugleikið eða er ekki mjög umdeilt Dæmi: Sjálfsvígsumræða er eitt slíkt umræðuefni, flest öll eru sammála um að þar er á ferð vandi sem snertir unga karla sérstaklega mikið og þarf að taka á. Hún er dæmi um umræðu sem kemur öðru hvoru upp og þú getur gripið til að dýpka skilning ungmenna á karlmennsku og tilfinningalæsi. Umræðuefnið er þó þungt og viðkvæmt svo æskilegt er að þekkja hópinn vel áður en þú byrjar hana að fyrra bragði.